Bleika slaufan seldist upp og vefverslun jókst um 56%

Krabbameinsfélagið

16.01.2020 Markaðsverkefni

Bleika slaufan seldist upp á fyrstu vikum átaksins og beiðnir um skimanir margfölduðust í kjölfarið.

Hugsmiðjan á gjöfult og gott samstarf við krabbameinsfélagið og við erum gríðarlega ánægð með aðkomu okkar að samfélagsmiðlaherferð og Bleiku slaufunni á árinu sem leið en söfnunarfé átaksins er grundvöllur fyrir þjónustu Krabbameinsfélagsins.

Jóhanna Helga Þorkelsdóttir, yfirhönnuður og ljósmyndari Hugsmiðjunnar, fór í myndatöku fyrir samfélagsmiðlaherferð krabbameinsfélagsins. Markhópur herferðinnar voru konur af erlendum uppruna búsettar á Íslandi. Til að hvetja þann hóp til þess að nýta sér þjónustu Krabbameinsfélagsins betur. Árangurinn var ótvíræður. Um 800 tölvupóstar með beiðnum um tímapantanir í skimun biðu afgreiðslu hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins að loknum sumarleyfum. Aldrei hafa jafnmargar beiðnir beðið starfsfólks Leitarstöðvarinnar og nú.

„Ég hugsa að það sé samstilltu átaki að þakka, betri kynningu félagsins á starfseminni, áhrifum auglýsinga, sérstaklega á samfélagsmiðlum“ segir Halldóra Hálfdánardóttur, deildarstjóri stjórnsviðs Leitarstöðvarinnar.

 

 

„Við erum himinlifandi yfir þessu góða gengi Bleiku slaufunnar í ár. Okkur óraði ekki fyrir því að þessi breyting úr nælu í hálsmen færi svona vel í fólk.“

er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins á heimasíðu Bleiku slaufunnar.

Bleika slaufan er árlegt átak Krabbameinsfélagsins sem skiptist niður í fjár­öfl­un, ár­veknisátak og vit­unda­rvakn­ingu á krabba­meini hjá kon­um. Þegar um slík átök er að ræða er gríðarlega mikilvægt að ná til sem flestra og þar getur öflug viðvera á samfélags- og vefmiðlum m.a. skipt sköpum. Með öflugri markaðsherferð jókst vefverslun með slaufuna um 56% á milli ára.

Hugsmiðjan kom einnig að því að halda svokallað Bleikt bíó, bíókvöld Bleiku slaufunnar, í Háskólabíó þann 1. október. Viðburðurinn var gríðarlega vel sóttur og komust færri að en vildu.

Starfsemi Krabbameinsfélagsins var einnig kynnt fyrir gestum sýningarinnar. Þá fengu velunnarar Bleiku slaufunnar, sem hafa styrkt átakið með einum eða öðrum hætti gegnum árin, að kynna vörur sínar á viðburðinum. Meðal þeirra voru Bláa lónið, Penninn, Urð og Nói Síríus svo dæmi séu tekin. Háskólabíó var fullt út að dyrum en þeir sem fengu ekki miða gátu fylgst með beinni útsendingu af viðburðinum á samfélagsmiðlum Bleiku slaufunnar.