Fjársýslan lógó

Innri vefur Fjársýslu ríkisins

Verðlaunuð risaeðla með vængi

Í framhaldi af endurnýjun ytri vefjar Fjársýslu ríkisins, vorið 2013, var farið að huga að innri vef stofnunarinnar. Enginn innri vefur var til staðar og eftir flutning í stærra húsnæði söknuðu starfsmenn þess að hafa ekki alla kollegana í kallfæri. Megintilgangur nýja vefjarins átti að vera að þjóna starfsmönnum varðandi miðlun upplýsinga og skapa sameiginlegan tilverupunkt.

Meðalaldur starfsmanna er nokkuð hár og þeir kannski ekki jafn vanir því að sækja í vef- og netlausnir og yngri aldurshópar. Það var því ljóst að vefurinn þyrfti markvisst að „trekkja að“ til að starfsmenn færu þangað reglulega og vefurinn gæti þar með náð markmiðum sínum.

Forsíða innri vefs

Nálgun

Innri vefurinn byggir á útlitslegum grunni ytri vefjarins, einkum til að ýta undir kunnugleika. Í samráði við vefhóp Fjársýslunnar ákváðum við að draga sérstaklega fram nokkra þætti til að ýta undir notkun á vefnum:

Matur er mannsins megin og á innri vefnum skráir matráður matseðill komandi viku og starfsmenn geta skráð sig í mat með einföldu skráningarformi. Þannig er vitað hvað von er á mörgum hvern dag, með tilheyrandi hráefnissparnaði.

Matarskráning

Virkur flóamarkaður er á innri vefnum og þar geta starfsmenn sjálfir auglýst til sölu, óskað eftir eða gefið hluti.

Flóamarkaðurinn

Á vefnum birtast tilkynningar og fréttir auk þess sem haldið er úti virku bloggi.

Verkþættir Hugsmiðjunnar

  • Útlitshönnun byggð á ytri vef (fjs.is)
  • Ráðgjöf og aðstoð við skipulagningu og veftré
  • Viðmótsforritun og kerfisuppsetning
  • Uppsetning sérlausna og virkniprófanir

Niðurstaða

Innri vefurinn var opnaður 19. september og hefur verið vel sóttur. Í upphafi voru það einkum matarskráningarnar sem hvöttu starfsmenn til að nota vefinn, en smám saman hefur aðsókn í aðra hluti tekið við sér og vefurinn öðlast sjálfstætt líf.

Á blogginu hafa verið birtar innsendar greinar, sem spanna allt frá uppskriftum og sögulegum fróðleik til léttra skota á staðalmyndir kynjanna. Innri vefurinn hefur tekið yfir hlutverk korktaflna á kaffistofum og stefnt er að því að bæta smám saman við hann fleiri efnisþáttum – sér í lagi byggt á ábendingum starfsmanna sjálfra.

Fjársýslan er stofnun sem starfsmenn gantast með að hafi ímynd risaeðlu hjá þeim sem ekki þekkja til. Á ráðstefnu um innri vefi íslenskra fyrirtækja á vegum Skýrslutæknifélagsins notaði Stefanía Ragnarsdóttir vefstjóri þá líkingu að með innri vefnum hefði risaeðlan öðlast vængi og væri smám saman að takast á flug.

Flughæfnisskírteinið var rækilega staðfest þegar vefurinn var valinn besti innri vefurinn af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna. Í niðurstöðum dómnefndar segir meðal annars:

Vefurinn er einfaldur, aðgengilegur og leysir að mati dómnefndar þau hlutverk sem innri vefur þarf að leysa, þ.e. að auðvelda dagleg störf sem og að efla samskipti starfsmanna. Auk þess að birta miðlægt praktískar upplýsingar tengdar starfsemi stofnunarinnar, líkt og handbækur, tól og tæki. [...]

Eftir að hafa opnað frábæran ytri vef árið áður, og hlotið verðlaun fyrir á síðustu hátið, er ljóst að risaeðlan er ekki aðeins komin með vængi, hún hefur tekið á hátt og mikið flug!

Pössum við saman?

Ef þig langar að gera góða hluti á netinu þá viljum við endilega heyra í þér!

Hafa samband