Ávinningur #6klst vinnudags

Minni vinna og allir vinna

Niðurstöður úr tveggja ára
tilraunaverkefni Hugsmiðjunnar.

Fyrir tveimur árum var vinnudagur starfsfólks Hugsmiðjunnar styttur í 6 stundir án launaskerðingar. Ein einföld breyting en áhrifin voru meiri en nokkur gat ímyndað sér.

09:00

Starfsmaður mætir og vinnudagurinn hefst

Gamaldags vinnudagur

Nútíma vinnudagur

Klukka Created with Sketch. quartz 12 3 6 9

15:30

Starfsmenn taka sér hálftíma matarhlé og hætta kl. hálf fjögur*

* Þeir sem stökkva í ræktina í hádeginu vinna þá svolítið lengur í staðinn.

Fersk og skapandi hugsun

Það er ekkert náttúrulögmál að manneskja vinni átta klukkustundir á dag. Vinnan sem við sinnum krefst miklu frekar ferskrar og skapandi hugsunar en langrar viðveru á skrifstofunni.

Margeir Steinar Ingólfsson

Hluthafi og stjórnarformaður

Gæðastundir með fjölskyldunni

Starfsfólk hefur getað nýtt styttri vinnudag til að njóta aukinna samvista með börnum sínum og tekið virkari þátt í uppeldinu. Minni vinna þýðir fleiri gæðastundir með fjölskyldunni og ánægjulegra heimilislíf.

Það sem skiptir
raunverulega máli

Þar sem ég lá á sjúkrahúsinu, skelkaður og illa slasaður eftir harkalegt skíðaslys, fór ég að endurskoða hvað skipti mig raunverulega máli í lífinu.
Ég vildi hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldu og vinum – og ég vildi að starfsfólk fyrirtækisins gætið notið þess sama.

Þórarinn Friðjónsson

Hluthafi og rekstrarstjóri

23%
Meiri framleiðni
44%
Færri veikindadagar
100%
Ánægja starfsmanna

Meiri tími fyrir sjálfsnám
og þróun í starfi

Starfsfólk hefur getað nýtt aukastundirnar til að svala forvitni sinni og fróðleiksfýsn, lesið og mætt á námskeið. Slíkt sjálfsnám gerir það ekki einungis að ánægðari manneskjum heldur einnig víðsýnni og hæfari starfskröftum.

Tími til að sinna
sjálfum sér

Í sítengdum og æ hraðari heimi getur verið erfitt að finna tíma fyrir sjálfan sig. Með færri vinnutímum gefst starfsfólki aukið rými fyrir hreyfingu, áhugamál eða bara þá andlegu og tilvistarlegu leit sem gefur þessari stuttu jarðvist tilgang.

Aukinn sveigjanleiki

Að geta tekið lengri hádegismat suma daga og nýta til að fara á æfingu eða mæta aðeins seinna á morgnanna og losna þannig við morgunumferðina. Það eru alvöru lífsgæði!

Ingibjörg Ólafsdóttir

Viðskipta- og þjónustustjóri

Ekkert drama, bara gaman

Dramatík varðandi að sækja börn og komast á æfingu heyra sögunni til, auk þess sem orkustigið er hærra yfir daginn. Ég held 100% fókus og skila af mér betri vinnu.

Andri Már Kristinsson

Ráðgjafi

Gerir gæfumuninn

Það munar öllu fyrir mig, sem einstætt foreldri með drengi á grunnskólaaldri sem ekki eru á frístundarheimili eftir skóla, að geta verið kominn heim snemma á daginn til að vera með þeim.

Egill Harðar

Hönnuður

Hugsjónin um lífvænlegri vinnumenningu

Fyrsta skrefið tekið inn í framtíðina

Þrátt fyrir að auður og efnisleg velmegun hafi margfaldast á undanförnum árautugum hefur vinnustundunum ekki fækkað í sama mæli. Íslendingar eyða ennþá meira en helmingi vökustunda sinna í vinnunni. Streita og álagstengd veikindi verða algengari og kulnun í starfi víðtækt vandamál. Vinnan tekur oft svo stóran hluta dagsins að fólk finnur ekki tíma til að sinna öllu hinu sem veitir því vellíðan og gefur lífinu tilgang: fjölskyldu, áhugamálum, hreyfingu og andlegri næringu.

Forgangsröðun

Hugsmiðjan hefur í tvo áratugi aðstoðað viðskiptavini við að hugsa út fyrir kassann, leysa úrelt kerfi af hólmi og horfa til framtíðar. Fyrir rúmlega tveimur árum var orðið ljóst að fyrirtækið þyrfti einnig að líta í eigin barm og endurhugsa starfsemina. Í stað þess að hugsa fyrst og fremst um að hámarka ágóða hluthafanna var ákveðið að snúa forgangsröðinni við. Hamingja starfsfólks skyldi vera númer eitt. Hugmyndin var að þetta myndi skila sér í einbeittari og betri starfskröftum og þar af leiðandi aukinni ánægju viðskiptavina – það myndi svo að lokum gera hluthafana ánægða.

Framkvæmd

Ráðist var í styttingu vinnudagsins úr hefðbundnum átta klukkustundum á dag niður í sex tíma án launaskerðingar. Aukinn frítími starfsfólks myndi vonandi skila sér í betri heilsu, aukinni hugarró og einbeitingu á vinnutíma, en slíkt er sérstaklega mikilvægt í fyrirtæki sem leggur áherslu á að koma með nýstárlegar og frumlegar lausnir – vinna sem krefst ferskrar hugsunar frekar en langrar viðveru á skrifstofunni.

Í upphafi voru margar efasemdaraddir uppi um gildi tilraunarinnar, en áhrifin létu ekki á sér standa og nú tveimur árum síðar eru þau auðmælanleg.

Mælanleg áhrif

Hamingja starfsfólks hefur aukist, andleg og líkamleg heilsa þess batnað, þannig að veikindadögum hefur fækkað umtalsvert. Einbeiting er betri og þar með afköstin á vinnutíma. Þvert á svartsýnisspár hefur framleiðni aukist svo mikið að starfsfólk afkastar jafn miklu á sex tímum og það gerði áður á átta. Þrátt fyrir færri vinnustundir hafa tekjur fyrirtækisins aukist síðan tilraunin hófst. Semsagt, minni vinna og allir vinna!

Draumurinn um sífellt styttri vinnuviku og fjölskylduvænni vinnumenningu hefur verið leiðarljós verkalýðshreyfinga og lífsspekinga frá upphafi iðnbyltingarinnar. Með síhraðari tækniþróun og sjálfvirknivæðingu á 21. öldinni verður þessi hugsjón æ raunhæfari. Það þarf hins vegar hugrekki og framsýni til að gera drauminn að veruleika. Með sex tíma vinnudeginum lítur Hugsmiðjan fram á veginn og stígur fyrsta skrefið inn í framtíðina.

Hamingja starfsfólks hefur aukist, andleg og líkamleg heilsa þess batnað, þannig að veikindadögum hefur fækkað umtalsvert.

Veitum betri þjónustu
en áður

Ég hafði miklar efasemdir um að við gætum sinnt viðskiptavinum okkar jafn vel og áður ef starfsfólkið ynni færri stundir á hverjum degi. En það kom mér ánægjulega á óvart hvað framleiðnin jókst. Ótrúlegt en satt þá erum við að veita enn betri þjónustu en áður.

Ragnheiður Þorleifsdóttir

Framkvæmdastjóri

Taktu þátt í byltingunni!

Mótum nýja og lífvænlegri
vinnumenningu í sameiningu
#6klst

Deildu síðunni og dreifðu boðskapnum áfram.
Bentu vinnuveitanda þínum á ávinninginn af 6 stunda vinnudegi eða láttu fyrirtækið þitt vera í fararbroddi í mótun betri vinnumenningar.