Ratað í Analytics-skóginum

04.11.2016

Við þekkjum öll Google Analytics skýrslutólið og notum það náttúrulega á hverjum einasta degi til að kafa ítarlega ofan í það hvað notendur okkar eru að gera á vefnum, enda einfalt og þægilegt.

Eða, svona næstum…

Meinið með Analytics er að þar er verið að birta svo margs konar upplýsingar sem hægt er að rýna í frá svo ólíkum sjónarhornum, að viðmótið hefur með tímanum orðið það flókið að varla glyttir lengur í skóginn fyrir trjám.

Hönnuðirnir hjá Google eru reyndar að kynna nýja viðmótsnálgun á Analytics skýrslurnar sem mun seytla inn hjá okkur notendum á næstu vikum (og einhver atriði sem þeir nefna hafa þegar skotið upp kollinum). Vonandi verður sú yfirhalning til bóta og þessi fyrstu skjáskot af nýju viðmóti lofa góðu.

En þó viðmótið batni breytir það því ekki að það krefst yfirlegu og skipulagningar að draga fram réttu gögnin. Þar er í raun aðalspurningin hvað átt er við með „réttu gögnunum“ — trúlega eru það þær upplýsingar sem eru okkur mikilvægastar á hverjum tíma, en stundum sjáum við auðvitað ekki fyrr en eftir á hvað hefði verið gagnlegt að vita aðeins fyrr…

Þá getur verið gott að fá óháðan aðila á borð við Hugsmiðjuna til að fara yfir gögnin; taka út núverandi mælingar og uppsöfnuð gögn, kanna hvort eitthvað þurfi að laga uppsetninguna auk þess að stilla upp sérunnum skýrslum eða mæliborðum (e. dashboard) til að auðvelda reglulega eftirfylgni.

Fyrir utan það að fylgjast með beinhörðum sölum (þar sem um slíkt er að ræða) má nota Analytics mælingar og skýrslur til að fylgjast með atriðum á borð við;

  • Að hvaða efnisorðum eru notendur að leita inni á okkar vef og á hvaða síðum eru þeir staddir þegar þeir fara í innri leitina?
  • Hvaðan eru nýir gestir að koma inn á vefinn okkar? Eru einhver markaðssvæði eða áhrifavaldar í t.d. ferðamennsku sem vefnotkun gefur vísbendingar um áður en sú umferð fer að skila sér í beinum viðskiptum?
  • Hvernig getum við með sjálfvirkum hætti reynt að aðgreina notkunartölur ólíkra notendahópa og kallað fram sjálfvirkar skýrslur um hegðun þeirra mikilvægustu?

Loks getur verið gagnlegt að nýta Google Analytics sem „söfnunartól“ fyrir upplýsingar sem tengjast vefnotkun en leiðir ekki sjálfkrafa af dæmigerðum síðuflettingum.

Sem dæmi má nefna Eplica einingu sem er víða í notkun og birtist notendum sem einföld spurning neðst á síðum: „Var þetta efni gagnlegt? Já | Nei“. 
Sú eining nýtir sér event-tracking í Google Analytics til að senda þangað tilkynningar, auk þess að safna innsendum athugasemdum innan Eplica.

Með því að setja upp mæliborð fyrir þau gögn getur vefstjóri með einföldum hætti haft yfirsýn yfir það á hvaða síðum notendur eru líklegastir til að svara, annað hvort jákvætt eða neikvætt, og fengið sjálfkrafa sendar skýrslur til dæmis á tveggja vikna fresti.

Heyrðu endilega í okkur og kannaðu hvort við eigum ekki til þau leiðsögutæki og/eða stórvirku trjáklippur sem gagnast þér til að rata betur um þinn hluta Analytics-skógarins.