Orkunotkun í þínum höndum

08. OKTÓBER 2025

Veitur og Hugsmiðjan þróa nýjan þjónustuvef fyrir almenning

Veitur og Hugsmiðjan hafa undirritað samstarfssamning um þróun á nýjum þjónustuvef sem mun styrkja samskipti Veitna við almenning. Veitur, sem reka vatns-, hitaveitu- og rafmagnsinnviði fyrir stærstan hluta landsmanna, leggja áherslu á að efla þjónustu sína með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi. Samstarfið við Hugsmiðjuna er stórt skref í þeirri vegferð.

„Við viljum færa þjónustu Veitna nær almenningi og gera hana gagnsærri. Með samstarfi við Hugsmiðjuna getum við stytt leiðina milli viðskiptavinarins og upplýsinga sem skipta máli og þannig hjálpað fólki að taka upplýstari ákvarðanir um eigin orkunotkun,“ segir Brynja Ragnarsdóttir, forstöðukona þjónustu hjá Veitum.

Nýi þjónustuvefurinn mun gera viðskiptavinum kleift að fylgjast með allri sinni orku- og veitunotkun á einum stað. Þar verður hægt að skoða reikninga, greiðslur og notkun, fylgjast með þjónustubeiðnum og fá persónulega ráðgjöf um orkusparnað og sjálfbærar lausnir.

„Sem stærsta veitufyrirtæki landsins reka Veitur mikilvægustu innviði samfélagsins. Með þessu samstarfi styrkjum við tengsl Veitna við almenning og gerum þjónustuna einfaldari, gagnsærri og sjálfbærari. Viðskiptavinir fá þannig meiri yfirsýn og stjórn á eigin orkunotkun, sem er einmitt kjarninn í því sem Hugsmiðjan sérhæfir sig í, að skapa stafrænar lausnir sem gera þjónustu aðgengilegri, einfaldari og sjálfbærari,“ segir Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar.