Naktir fjallgöngugarpar og kjaftforir djassunnendur

06.11.2018

Starfsfólk Hugsmiðjunnar hefur skotið upp kollinum víða undanfarna daga. Svo víða að það þótti tilefni til að skrifa þessa færslu og birta á internetinu.

Við buðum í partí um daginn þar sem við fórum yfir nýja rannsókn sem EMC framkvæmdi í samstarfi við Hugsmiðjuna. Þar var netverslun Íslendinga meðal annars könnuð og niðurstöðurnar sýna að bylting er handan við hornið ef þróunin sem er þegar hafin heldur áfram.

Ragga eflaust að segja eitthvað af viti.

RÚV sýndi málinu áhuga um helgina og Ragnheiður framkvæmdastjóri lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og tjáði sig um málið í kvöldfréttunum.

Margeir hefur farið með starfsfólk Hugsmiðjunnar í kalda pottinn í Sundhöll Reykjavíkur á föstudagsmorgnum í vetur og kennt sérstakar öndunaræfingar á bakkanum. Uppátækið hefur vakið talsverða athygli og aðdáun þess hluta starfsfólks sem er, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, voðalega upptekið akkúrat á þessum tíma á föstudögum (?)

Þrátt fyrir þetta tók fólk því svona mátulega alvarlega þegar Margeir sagðist á dögunum kokhraustur ætla að klífa Esjuna hálfnakinn. Það var ekki fyrr en Vísir og Bylgjan fluttu fréttir af málinu að það fékkst staðfest að hann er ekki bara ískaldur, heldur einnig illa haldinn af strípihneigð.

Athugið að viðskiptavinir okkar geta framvegis óskað eftir fundi með Margeiri með því að biðja um „einn kaldann“.

Djassinn er aldrei langt undan þegar Brynja er annars vegar.

Brynja Jónbjarnardóttir, sem hóf nýlega störf í markaðsteyminu, var í viðtali í Viðskiptablaðinu í síðustu viku þar sem ýmislegt skemmtilegt kom fram. Það sem kom samstarfsfólki Brynju mest á óvart var að hún er mikill djassunnandi en flestir höfðu gefið sér að hún sé grjótharður hipp hoppari af gamla skólanum (miðað við munnsöfnuðinn þegar hádegismaturinn kemur of seint).

Brynja hefur því eytt síðustu dögum í að fara yfir feril Dexters Gordon og Miles Davis á skrifstofunni, við furðudræmar undirtektir. Í viðtalinu sagðist hún einnig hafa áhuga á góðum vínum og þess vegna hefjast föstudagarnir á því að hún er látin blása (í trompet).

Tónlistin er aldrei langt undan á Hugsmiðjunni. Okkar eigin Paul Lydon gaf út plötuna Sjórinn bak við gler á dögunum og Óttar, Margeir og Hrafn verða að sjálfsögðu á sínum stað á Airwaves, sem hefst í vikunni.

Við hjálpuðum einnig Nova að gera tónleikaröðina Uppklapp að veruleika, sem fór af stað í síðustu viku með frábærum tónleikum Lay Low í versluninni í Lágmúla. Á Uppklappi kemur íslenskt listafólk fram, flytur eigin tónlist, situr fyrir svörum og segja meðal annars frá lögunum sem þau völdu inn á Tónlistann.

Atli Fannar kafar ofan í stóru málin í hinni vinnunni sinni.

Og ekki má gleyma honum Atla Fannari, sem hóf störf í markaðsteyminu fyrir skömmu ásamt henni Brynju. Hann lætur ekki sitt eftir liggja í yfirtöku Hugsmiðjunnar á fjölmiðlum landsins og fer yfir fréttir vikunnar í þætti Gísla Marteins á RÚV á föstudagskvöldum (innskot Atla: Næst vinsælasti þáttur landsins á eftir Landanum. Enginn hefur keppt við Gísla Einars og unnið).

Hann hefur samt ekki enn þá farið með hópnum í kalda pottinn — pínu skrýtið að vera alltaf „rosalega upptekinn“ klukkan átta á föstudagsmorgnum …