Ábendingar vegna yfirfærslu í Google Analytics 4

Google hefur gefið það út að eldri nálganir við vefmælingar með Google Analytics muni hætta að safna gögnum 1. júlí næstkomandi (2023) nema þær verði uppfærðar í það sem kallað er „Google Analytics 4“ (fjórða kynslóð). Þetta á sér í lagi við „Universal Analytics“ sem margir vefir nota og er nú verið að úrelda.

Ef vefir eru að nota Universal nálgunina þarf því á næstu mánuðum að taka ákvörðun um hvort uppfæra á í nýrri nálgun eða fara aðrar leiðir við notkunarmælingar.

Fyrir vefi sem teknir hafa verið í notkun á síðustu 1-2 árum er mögulegt að verið sé að nota nýju nálgunina (Google Analytics 4) og ef svo er hefur þessi breyting engin áhrif.

Hvernig sé ég hvaða nálgun er í notkun?

Þar sem það eru margar leiðir til að virkja Analytics mælingar á vefjum er einfaldast að fara í Google Analytics skýrslurnar og skoða hvernig viðmótið lítur út þar.

Í eldri útgáfu (Universal Analytics) er valmyndin vinstra megin svona:

Viðmót fyrir eldra Analytics

En fyrir Google Analytics 4 er hún svona:

Valmynd fyrir GA4

Ef þið eruð að safna gögnum í Google Analytics 4 viðmótinu (og sjáið að þau gögn eru fullnægjandi) ætti ekki að vera þörf fyrir neinar breytingar af ykkar hálfu.

Á að halda áfram með Google Analytics?

Ef þörf er á uppfærslu er fyrsta spurningin til að ræða hvort Google Analytics sé endilega besta lausnin. Fyrir nokkrum árum var það næstum sjálfgefið að ef ætlunin var að mæla vefumferð var Google Analytics sú leið sem flestir mæltu með. Með aukinni vitund um persónuvernd og fleiri möguleika hefur það breyst.

Ef fylgja á persónuverndarlögum ætti ekki að virkja mælingar með Google Analytics nema fyrir liggi raunverulegt samþykki notenda (sem t.d. fæst ekki með villandi tilkynningaborðum). Það eitt og sér verður til þess að mælingar Google ná ekki til allra notenda. Þar að auki er fjöldi notenda með vafra og/eða vafraviðbætur stillt á að loka sjálfkrafa á mælingar frá Google á öllum vefjum. 

Þetta stafar af því að Google er bæði að safna langtímaupplýsingum um notendur (prófílering) og sendir þær upplýsingar til vinnslu í Bandaríkjunum. Hvort tveggja er brot á persónuverndarlögum nema skýrt og upplýst samþykki liggi fyrir. (Google segist vera að breyta staðsetningu vinnslunnar með GA4, en það er fullyrðing sem er erfitt að sannreyna).

Með því að nýta mælingar sem virða betur evrópskar persónuverndarreglur er ekki þörf á samþykkisborðum og meiri líkur á að mæligögn séu nálægt því að mæla raunverulega notkun.

Við hjá Hugsmiðjunni höfum góða reynslu af því að nota mælingar frá Plausible.io. Sú nálgun sem þar er farin notar ekki vefkökur og gerir enga tilraun til að fylgjast með notendum milli daga, þannig að það fellur ekki undir skilgreiningar á söfnun persónuupplýsinga – auk þess sem Plausible hýsir öll gögn innan Evrópu . Greitt er fyrir þjónustu Plausible, kostnaðurinn fer eftir umferð en er frá 9$/mánuð.

Fyrstu mánuði ársins 2023 mældust 37% fleiri síðuflettingar á vef Hugsmiðjunnar með Plausible heldur en með Google Analytics 4 – fyrst og fremst vegna notenda sem ekki veita samþykki og/eða loka sjálfkrafa á mælingar. Þannig að í GA4 gögnin vantar upplýsingar um ca. 1/4 af notkuninni.

Fjölmargar fleiri leiðir eru í boði auk Plausible, til dæmis má leita að „Google Analytics alternatives“.

Er raunverulega verið að nýta styrkleika Google Analytics?

Google Analytics býður upp á fjölmarga möguleika, svo marga í raun að fæstir eru að nota nema brotabrot af þeim.

Ef þið eruð fyrst að taka eftir þessari yfirvofandi breytingu hjá Google Analytics hér og nú er það viss vísbending um að ekki sé verið að fara reglulega inn í skýrsluviðmót Google Analytics, þar sem áberandi tilkynningaborði um þessa breytingu hefur verið þar síðan um mitt síðastliðið ár.

Ef ekki er verið að nota styrkleika Google Analytics með reglulegum hætti gæti vel verið að aðrar nálganir kæmu allt eins vel (eða betur) út.

Skýrsluviðmót samkeppnisaðilanna (á borð við Plausible) er oft einfaldara og að mörgu leyti skýrara, enda ekki verið að bjóða upp á eins yfirþyrmandi marga valkosti. (Auðvitað eru svo aðrir sem stæra sig af því að bjóða upp á enn fleiri skýrslumöguleika en Google).

Hver eru skrefin við að uppfæra í Analytics 4?

Einfaldast er að fara inn í skýrsluviðmót Analytics, inn í Admin viðmótið og fara þar í gegnum „GA4 Setup Assistant”:

GA4 Setup assistant virkjað

Samþykkið að halda áfram:

Upphaf Setup ferlisins

Ef þið eruð þegar að nota Google tag er það sjálfgefinn valkostur, en fyrir flesta þarf trúlega að velja að búa til nýtt tag (Install a Google tag):

Valið að stofna nýtt tag

Loks þarf í skrefinu „Install your Google tag“ að velja „Install manually“, afrita kóðann sem þar er sýndur og senda okkur.

Deilingarkóði sóttur

Hluti af ferlinu er að allir notendur sem höfðu aðgang að þeim mælikóða (e. Property) sem verið er að uppfæra fá sjálfkrafa aðgang að nýja GA4 taginu, svo það ætti ekki að þurfa að breyta neinu þar.

Með því að senda kóðann úr lokaskrefinu til okkar ættum við að geta uppfært mælikóðana á vefnum og þá er í framhaldi hægt að sannreyna að mælingarnar skili sér. Við myndum tímabundið mæla bæði með núverandi kóða og nýja GA4 kóðanum, en það er ekki ráðlegt að hafa þá nálgun lengi þar sem það hægir óhjákvæmilega aðeins á hraða síðunnar.

En ef við höfum ekki aðgang að Analytics stillingum?

Það kemur fyrir að vegna t.d. mannabreytinga sé ekki ljóst hverjir hafa aðgang til að breyta Google Analytics stillingum. Það getur líka verið að notendur sem hafa aðgang að tölfræði og skýrslum hafi ekki nægjanleg réttindi til að breyta stillingum á borð við það að virkja Google Analytics 4.

Ef staðan er sú að ekki er vitað hver hefur aðgang til að breyta stillingum, þá er til ferli hjá Google til að fá úthlutað nýjum aðgangi sem við hjá Hugsmiðjunni getum aðstoðað við. Athugið að það ferli getur reynst tímafrekt og mikilvægt að hefja það sem fyrst – því það er líklegt að fyrirtæki um allan heim séu núna að dusta rykið af Analytics stillingum sínum.

Það er svo spurning hversu mikla vinnu er verjandi að setja í endurheimt á slíkum aðgangi, sér í lagi ef aðrar mælingaleiðir eru líklegar til að skila jafn góðri eða betri niðurstöðu.

Hvað með sérsniðnar mælingar, viðburði og markmið?

Ef settar hafa verið upp sérsniðnar mælingar á t.d. viðburðum (e. events) og/eða markmiðum (e. goals) þarf að skoða það sérstaklega.

Google Analytics 4 byggir á töluvert annarri nálgun heldur en fyrri mælingaleiðir og því getur þurft að breyta því hvernig slíkar mælingar eru framkvæmdar. GA4 Setup Assistant reynir að uppfæra sjálfkrafa þær mælingar sem þegar eru til staðar, en ræður bara við einföldustu tilvik.

Við þyrftum því að meta hversu mikil vinna væri við að breyta mögulegri sérvirkni þannig að hún virki með svipuðum hætti eftir yfirfærsluna.

Frekari upplýsingar

Ef eitthvað er óljóst hvetjum við ykkur til að senda spurningar á þjónustuborðið okkar: hjalp@hugsmidjan.is

Athugið að Hugsmiðjan hefur ekki möguleika á að uppfæra vefmælingar sjálfkrafa, því þurfa viðskiptavinir okkar að setja sig í samband við okkur.