Minningar

2021

  • Stefnumótun og ráðgjöf
  • Mörkun
  • Hönnun
  • Stafræn ásýnd
  • Markaðssetning

minningar.is


Minningarvefur sem er gjöf til þjóðar

Minningar.is er nýr vefur þar sem fólk getur stofnað minnngarsíður um látna ástvini, skrifað minningargreinar, tilkynnt um andlát og útfarir og deilt efninu áfram á samfélagsmiðla. Auk þess er hægt að nálgast hagnýtar upplýsingar sem styðja við aðastandendur á erfiðum tímum.

Minningargreinar hafa lengi verið hluti af íslenskum hefðum en á þessum nýja vef er verið að gefa þjóðinni möguleika á því að nýta tæknina og um leið færa minningargreinarnar og andlátsfregnir nær fólki á opnum og gjaldfrjálsum vettvangi.

Hugsmiðjan hefur komið að því síðustu misseri að móta hugmyndina á bakvið vefinn auk þess að sjá um hönnun á vörumerkinu, vefnum og markaðsefninu. Þá höfum við fylgt verkefninu eftir með markaðsherferð með góðum samstarfsaðilum.


Ráðgjöf við tækniþróun og notendaupplifun

Verkefnið er einstakt að því leiti að um er að ræða hugmynd sem var upprunalega frumreynd í lokaverkefni þriggja nemenda í BS. námi í hugbúnaðarverkfræði í HR. Að útskrift lokinni kom verkefnið inn til okkar hjá Hugsmiðjunni í gegnum englafjárfestingafélagið Tennin sem ákvað að gerast bakhjarl verkefnisins.

Samstarfið hefur verið fjölþætt, en Hugsmiðjan hefur séð um alla hönnun í verkefninu frá mörkun yfir í notendaupplifun ásamt hönnun á vef og markaðsefni í góðu samstarfi við Minningar. Þar að auki höfum við veitt forritunarteymi Minninga tæknilega ráðgjöf við forritun vefsins og þróun.


Einföld ný leið til þess að tilkynna um andlát

Kjarninn í vefnum eru minningarsíður, en þær verða meðal annars til þegar aðstandendur tilkynna um andlát. Mikið var lagt upp úr því að tryggja það að allir ferlar væru skýrir og stuttir til þess að gera það einfalt fyrir aðstandendur að setja upp minningarsíður og tilkynningar ásamt því að skrifa minningargreinar.

Eitt af því mikilvægasta er svo tenging vefsins við samfélagsmiðla og því er alltaf stutt í deilingarhnappinn og með því hjálpum við aðstandendum að dreifa andláts- og útfarartilkynningunum á samfélagsmiðlum fyrir sína nánustu.



Hlýja í fyrirrúmi í allri hönnun

Hugsmiðjan hefur veitt aðstandendum verkefnisins ráðgjöf með stefnumótun –bæði í sambandi við vöruþróun en ekki síður varðandi uppbyggingu á nýju vörumerki.

Markmiðið er að skapa kærleiksríkan opin rafrænan vettvang fyrir minningargreinar og andlátstilkynningar. Við vildum því að ásýndin væri björt og hlýleg, en á sama tíma nútímaleg.

Merki Minninga er hannað af Halla Civelek –hringurinn og byljurnar eru mjúk, hlý form sem falla vel að heildar ásýndinni og standa fyrir hringrás tilverunnar og að Minningar hjálpa aðstandendum að halda minningunni lifandi.

Við vildum gefa fólki fallegan stað til þess að halda utan um minningar um látna ástvini, þar spila persónulegar myndir ekki síður stórt hlutverk en texti og er því verið að brjóta upp hefðbundna formið og búa til nýjar hefðir þegar kemur að því að skrá minningar um látna ástvini.

Forseti Íslands opnaði vefinn minningar.is

„Góðar minningar lifa. Landsmönnum mun þykja vænt um að geta minnst ástvina á þessum fallega vef“, sagði Guðni við opnunarathöfnina.
- Úr frétt af visi.is 26.des.2021

Guðni Th. Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson

Forseti Íslands

Minningin lifir á minningar.is

Hugsmiðjan fékk Arna og Kinski til liðs við sig til þess að sjá um framleiðslu og leikstjórn á kvikmyndaðari auglýsingu fyrir verkefnið, Ari Magg kvikmyndaði og tók ljósmyndir fyrir markaðsefni herferðarinnar.

Við vildum að auglýsingin kæmi til skila markmiði vefsins, því að varðveita minningar, og myndi endurspegla vefinn sjálfan með því að mála hlýlega mynd af góðum minningum. Niðurstaðan er þessi fallega saga af dóttur að kveðja föður sinn með minningarorðum á vefnum.

Við þökkum þeim Árna og Kinski ásamt Ara Magg kærlega fyrir samstarfið.


Kynnum til leiksins nýjan vettvang

Það var okkar hlutverk að stýra auglýsingaherferð í kringum opnun vefsins. Við vorum meðvituð um að við erum að kynna eitthvað alveg nýtt, sem snertir þó við okkur öllum einhverntíman á lífsleiðinni. Vefurinn opnaði á jóladag og hefur árangurinn verið ótrúlegur. Í byrjun árs höfðu tæplega 40 þúsund manns heimsótt vefinn og búið var að stofna um 200 minningarsíður á vefnum. Vefurinn hefur auk þess strax sannað tilgang sinn þar sem aðstandendur hafa nýtt hann til þess að tilkynna um andlát ástvinna og halda utan um upplýsingar um útförina og minningargreinar.

  • Minningar
  • Minningar
  • Minningar
  • Minningar
  • Minningar

Hugsmiðjuárið 2023

Myndlistarmiðstöð

Hjúkrun