Gagnvirk upplýsingaveita fyrir markaðsett lyf á Íslandi
Sérlyfjaskrá er gagnvirk upplýsingaveita Lyfjastofnunar fyrir fagaðila og almenning um öll lyf sem markaðssett eru á Íslandi. Ný útgáfa Sérlyfjaskrár, endurhönnuð frá grunni af Hugsmiðjunni, var tekin í notkun í desember 2022. Sérlyfjaskrá er mikið notuð og eftir opnun á nýju lausninni eru að mælast að jafnaði rétt tæplega 6.000 síðuflettingar á dag framkvæmdar af um 900 notendum. Það er því mikilvægt að hún sé áreiðanleg og lipur í notkun.
Lipurt viðmót
Við endurhönnun Sérlyfjaskrár var fylgt eftir nýrri stafrænni ásýnd sem tekin var í notkun á lyfjastofnun.is. Allt viðmót er gert einfaldara og stílhreinna með áherslu á auðlæsilegt efni. Flýtileiðir eru strax á fyrsta skjá til þess að notendur finni auðveldlega það sem þeir leita að.
Við útfærslu á síunarmöguleikum leitarniðurstaðna var tekið tillit til helstu þarfa notenda til að auðvelda þeim að þrengja hringinn hratt um réttu skráningarnar. Sjálfvirkni í gagnaumsýslu er aukin til muna til þess bæði að einfalda störf sérfræðinga Lyfjastofnunar og gera kleift að uppfæra gögn þéttar.
Byggt á notendaprófunum
Við hjá Hugsmiðjunni leggjum mikið upp úr gagnadrifnum ákvörðunum með áherslu á þarfir notenda frekar en innra skipulag fyrirtækja eða stofnana. Ítarlegur greiningarfasi fyrir nýja Sérlyfjaskrá var því lykilþáttur í hönnunarferlinu, enda um að ræða mikilvæga veflausn með öllum lyfjaskráningum á Íslandi sem margir hagsmunaaðilar reiða sig á.
Í upphafi voru notendaprófanir framkvæmdar á þáverandi veflausn sem tekin var í gagnið árið 2007. Notendur með ólíkan bakgrunn fengu tiltekin verkefni að leysa í því viðmóti til að gefa okkur innsýn í raunverulega notkun á lausninni og um leið hvað mætti betur fara.
Notandinn í fyrsta sæti
Notendaprófanir voru lykilatriði í greiningarfasa verkefnisins. Sérlyfjaskrá er veflausn sem heilbrigðisstarfsmenn nota í miklum mæli á hverjum degi. Við framkvæmdum því notendaprófanir bæði við upphaf verkefnisins í þáverandi veflausn og í frumútgáfu nýju lausnarinnar fyrir opnun. Óskir notenda úr þessum prófunum voru okkar leiðarljós í gegnum allt verkefnið.
Samhliða notendaprófunum var farið með sérfræðingum Lyfjastofnunar yfir tæknilegar forsendur og gagnahögun. Í sameiningu kortlögðum við hvaða gögn væri um að ræða og hvaða nálgun í framsetningu væri líklegust til að uppfylla þarfir sem flestra.
Ingibjörg Ólafsdóttir
Viðskiptastjóri
Hraðvirk og snjöll leitarvirkni
Það var mikilvægt að útfæra sértæka leitarvirkni fyrir Sérlyfjaskrána sem tekur mið af þörfum markhópa og aðstoðar þá við dagleg störf. Niðurstaðan er öflug, hraðvirk og snjöll leit sem á að auðvelda notendum að finna hratt og örugglega það sem þeir eru að leita eftir. Ef textaleit gefur margar leitarniðurstöður býður viðmótið upp á möguleika í flokkun og síun til að leiða notendur hratt og örugglega að þeim gögnum og upplýsingum sem þörf er á. Hvort sem notandinn vill fletta upp lyfjum samkvæmt ATC flokkun, kanna mögulegan lyfjaskort eða fá upp lægsta verðið á samheitalyfjum.
15 ára samstarf
Samstarf Hugsmiðjunnar og Lyfjastofnunar spannar 15 ár og erum við þakklát og stolt af því trausti sem okkur er sýnt. Afrakstur samstarfsins á síðustu 4 árum eru nýr ytri vefur stofnunarinnar , nýr enskur vefur stofnunarinnar, ársskýrsluvefur og nú ný Sérlyfjaskrá!
Mikilvægt vinnutól fyrir heilbrigðisstarfsmenn
Sérlyfjaskrá er leitarvél sem inniheldur upplýsingar um öll markaðssett lyf á Íslandi og er sem slík mikilvægt vinnutól m.a. fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Vefurinn var kominn nokkuð til ára sinna og við sáum því klárt tækifæri til að þjónusta notendur enn betur með því að endurgera vefinn. Við vorum því lánsöm að njóta liðsinnis hins reynslumikla og klára teymis sem starfar hjá Hugsmiðjunni. Þau voru okkur innan handar í öllu ferlinu og það var afar gagnlegt að fá þeirra fjölbreyttu sérfræðikunnáttu að borðinu. Útkoman er fallega hannaður, aðgengilegur vefur með öfluga leitarvélavirkni sem við erum himinlifandi með og stolt af.
Jana Rós Reynisdóttir
Deildarstjóri samskiptadeildar hjá Lyfjastofnun